Heimildarmyndin um Kjartan Sægreifa

DVD-diskurHeimildarmynd um Kjartan Sægreifa var frumsýnd á Kirkjubæjarklaustri 15. nóvember 2014, gefin út á DVD-diski til sölu á almennum markaði og sýnd í RÚV 12. janúar 2015. Eiríkur Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður gerði myndina að eigin frumkvæði og skrifaði handrit að henni, Haukur Valdimar Pálsson annaðist myndatöku og klippingu.

Eiríkur kynnti verkefnið fyrst opinberlega á á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg vorið 2013. Þá var myndin í vinnslu. Hann var svo tekinn tali á visir.is 15. nóvember 2014, í tilefni frumsýningar myndarinnar á Klaustri, nálægt æskustöðvum Kjartans Halldórssonar í Meðallandi, og sagði þar meðal annars:

Ég þekkti ekkert rosalega mikið til hans sjálfur en vinur minn sem er mikið á Sægreifanum var alltaf að benda mér á Kjartan. Ég er í rauninni svolítið hissa á að það hafi ekki verið gerð mynd um hann fyrr. Kjartan er frá Syðri-Steinsmýri í Meðallandi og er Skaftfellingur. Ég vildi sýna hans sveit þann heiður að frumsýna myndina þar.

Kjartan er mjög spennandi maður, sem og hlutirnir sem hann hefur gert. Það má segja að hann eigi stóran hluta í þessari götumynd sem ríkir enn á þessu svæði. Hann barðist hatrammlega fyrir því að halda í þessa skemmtilegu hafnarmynd. Hann er hluti af sögu Reykjavíkur. Hann er af kynslóð sem einkennist af vinnusemi og hörku. Á tímabili svaf hann uppi á lofti á Sægreifanum, þetta var líf hans og yndi.

Í kynningu um Sægreifamyndina á vef Kvikmyndastöðvar Íslands er söguþráður hennar rakinn og birt skemmtileg karakterlýsing, sem vert er að halda til haga!

Kjartan Halldórsson frá Syðri-Steinsmýri í Meðallandi hefur unnið við ýmis störf til sjávar og sveita en var lengst af kokkur á togurum og skipum Landhelgisgæslunnar. Eftir sextugt opnaði hann veitingastaðinn Sægreifann sem hefur slegið í gegn hjá ferðamönnum jafnt sem heimamönnum, sem er bæði heimilislegri stemmningu staðarins og lífsgleði Kjartans að þakka. Hann talar aðeins íslensku og kann ekki á peningakassann svo hann reiðir sig á þernur staðarins, einna helst Elísabetu ráðskonu sína.

Fyrir mann af hans kynslóð er margt framandlegt við nútímann sem þernurnar frá tölvuöldinni geta hjálpað honum með og hann sýnir þeim hversu langt jákvæðnin og hispursleysið geta komið manni en Kjartan þjáist ekki af skorti á sjálfstrausti.

Að veturlagi, fyrir sólarupprás, sötra trillukarlar kaffi og líkist staðurinn þá fornlegri verbúð en húsið, sem er gamall beitingarskúr, væri búið að rífa eins og reyndar allt nánasta umhverfið ef ekki væri fyrir þrautseigju Kjartans. Kemur svo að því að Kjartan þarf að horfast í augu við elli kerlingu og velja sér arftaka, en ekki er víst að maður komi í manns stað. 


Í kvikmynd Eiríks Guðmundssonar um Sægreifann mætast æskan og ellin, gömul gildi og ný, erlendur ferðamannastraumur og sérlunduð íslensk kímni.