Kjartan Halldórsson

2Stofnandi Sægreifans, Kjartan Halldórsson, fæddist 27. september 1939 á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann var sjötti í röð átta barna Halldórs Davíðssonar og Halldóru Eyjólfsdóttur.

Hann ólst upp í sveitinni en fór á sjóinn sextán ára og stundaði sjómennsku með hléum til 2002, síðast á Erlingi KE og var oftast kokkur um borð.

Kjartan var sjálfstætt starfandi verktaki við húsaviðgerðir á árunum 1974-1990.

Hann stofnaði fiskbúðina Sægreifann árið 2003, seldi reksturinn árið 2011 en hélt áfram að starfa þar á meðan heilsan leyfði og bjó þar reyndar líka. 

Núverandi framkvæmdastjóri Sægreifans, Elísabet Jean Skúladóttir, byrjaði að vinna á Sægreifanum árið 2005 og keypti síðan reksturinn ásamt eiginmanni sínum, Daða Steini Sigurðssyni. Eina skilyrðið sem Kjartan setti var að hugsjón hans og umgjörð myndu lifa á staðnum eftir sinn dag. Við það er staðið og Elísabet lét meira að segja gera eftirmynd af Kjartani í fullri líkamsstærð til að hafa í veitingasalnum niðri.

2009Ernst J. Backman, stofnandi og skapari Sögusafnsins í Perlunni gerði myndina og lauk við hana haustið 2013.  Kjartan veiktist alvarlega á árinu 2012 og var bæði sjúkur og máttvana þegar Ernst tók afsteypu af andliti hans vorið 2013. Það verk var meiriháttar mál og reyndi verulega á fyrirmyndina en Kjartan vildi láta það allt yfir sig ganga. Hann var harðákveðinn í að stuðla að því að eftirmynd sín yrði til. Það gekk eftir og hinn „klónaði Kjartan“ situr alla daga á sínum stað og sér til þess að andi hans sem stofnanda staðarins svífi stöðugt yfir vötnum.

Kjartan Sægreifi Halldórsson lést á Landspítala 8. febrúar 2015, 75 ára að aldri.

2013