Upphafið

Veitingahúsið Sægreifinn á sér sögu sem hófst á árinu 2002 þegar Kjartan Halldórsson hætti sjómennsku og opnaði fiskbúð við Reykjavíkurhöfn 2003. Hann eignaðist fljótlega stóran og tryggan viðskiptavinahóp en svo fjölgaði líka erlendum ferðamönnum sem komu í búðina til að taka myndir af fiskinum og fisksalanum. Þeir vildu smakka líka og þá datt Kjartani í hug að grilla fisk á spjótum og laga humarsúpu í hádeginu. Það líkaði túristum vel og veitingarnar báru líka hróður fiskbúðarinnar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið.

Þannig hófst veitingarekstur Kjartans í nafni Sægreifans. Hugtakið sægreifi var reyndar skammaryrði og valið útgerðarmönnum sem högnuðust (óeðlilega) á fiskveiðistjórnarkerfinu. Kjartan var alla tíð harður andstæðingur kvótakerfisins en það var gott dæmi um napurt skopskyn hans að velja veitingahúsinu sínu einmitt þetta nafn, Sægreifinn!

Grillaður fiskur á spjóti og humarsúpa hafa frá upphafi verið aðalsmerki Sægreifans og þeir réttir sem staðurinn er þekktur fyrir, hérlendis og erlendis. Kjartan fór alla tíð eigin leiðir í rekstrinum og var óhræddur við að prófa eitthvað nýtt og frumlegt. Hann reykti til dæmis ál og háf í eigin reykofni sem hann flutti inn frá Þýskalandi. Hann verkaði síld eftir eigin höfði, bjó til súpu úr sæbjúgum og hafði um hríð á matseðli Sægreifans. Súpuna kallaði Kjartan sæ-agra og vísaði þar til þess að Asíubúar teldu sæbjúgu náttúruaukandi sjávarafurð.